Um 1990 var ég beðin af þáverandi æskulýðsfulltrúa Akraneskaupstaðar að halda sumarnámskeið í hestamennsku fyrir börn. Þessi bón varð að námskeiðahaldi og útikennslu í tuttugu og fimm ár. Ég stofnaði fyrirtækið Námshesta; hugmyndin á bak við nafnið er bæði að vera dugleg við námið og að geta lært af hestinum. Kennsluefnið útbjó ég sem stuðning við námsskrá grunnskóla fyrir miðstigið.
Lauslega talið voru skráningar á námskeiðin nærri tvö þúsund þann tíma sem hægt var að halda námskeið. Fyrir starfið voru Námshestar einu sinni tilnefndir til Frumkvöðuls Vesturlands af Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi og ég var einnig tilnefnd fyrir hugmyndina að baki Námshestum.
Námskeiðin héldu áfram eins lengi og hægt var eftir að hrossin tóku að veikjast, með þeim hestum sem voru við heilsu. Eftir því sem þeim fækkaði dró úr starfsemi Námshesta. Til að halda hestanámskeið þarf heilbrigð og hraust hross.