Hugmyndin

Hugmyndin að útikennslu í náttúrufræði kviknaði eftir að ég (Ragnheiður) byrjaði að halda sumarskeið fyrir börn í samvinnu við Akraneskaupstað. Markmið námskeiðanna var að kenna börnum að umgangast hesta og að leiðbeina þeim við ásetu og stjórnun. Þetta var í kringum um 1990. Hvatamaður að námskeiðunum var Einar Skúlason, en hann hefur um áraraðir unnið að æskulýðsmálum hjá Akraneskaupstað.

vordagar6.jpg - 62.42 KbÞað vakti fljótlega athygli mína hvað börnin tóku vel eftir öllu þegar við vorum að vinna með hestana og hvað þau lögðu sig fram um að gera rétt. Það var eins og nærvera hestanna skerpti athygli þeirra en einnig virðingu. Þau skildu fljótt að þau þurftu að ná athygli hestsins á jákvæðan hátt. Þau þurftu að virða hugsanir hans og tilfinningar, en einnig að taka forystuna í samskiptunum við hann. Þarna er um nokkur mjög krefjandi viðfangsefni að ræða sem börnin þurfa að takast á við á sama tíma.

Það var mjög athyglisvert að sjá að vinnan með hestana virtist henta flestum börnum. Sú hugsun sótti fljótlega mjög sterkt á mig að í þessu umhverfi og í návist hestanna færi fram mjög sérstakt nám. Svona hafði ég ekki séð áður og mér fannst að það þyrfti að nýta þessa leið til að kenna náttúrufræði og jafnvel fleiri námsgreinar. 

Hugmyndin að Námshestum varð til á útmánuðum 2007, þegar ég sótti námskeið á vegum Iðntæknistofnunar sem nefnist Brautargengi og er ætlað fyrir konur sem vilja hefja eigin atvinnurekstur. Undir handleiðslu frábærra kennara þróaði ég hugmyndina um útikennslu í náttúrufræði með áherslu á notkun hesta til að vekja og virkja áhuga nemenda fyrir umhverfinu. Ég naut góðs af félagsskap kvenna sem allar voru að stíga sín fyrstu skref í átt til sjálfstæðs rekstrar. Við höfum haldið hópinn síðan, hittumst reglulega og fylgjumst með hvernig gengur.

Á haustmánuðum 2007 bauð Kennaraháskólinn upp á viðbótarnám í náttúrufræði fyrir grunnskólakennara. Það tilboð hentaði mér ákaflega vel og ég hef fengið tækifæri til að vinna með hugmyndir um útikennslu undir handleiðslu kennaranna þar.