Öryggisatriði

Helstu öryggisatriði í umgengni við hesta eru eftirfarandi:

Að muna að hesturinn er hugsandi vera, hann hugsar öðruvísi en maðurinn og það þarf að umgangast hann af tillitssemi.

Að gera hestinum ekki bylt við með snöggum hreyfingum, hrópum, blístri, smellum eða öðrum hljóðum sem hann getur orðið hræddur við.

Að muna að hesturinn sér ekki þann sem kemur beint aftan að honum. Þess vegna þarf að varast að koma snögglega aftan að hestinum. Hann getur hrokkið við og jafnvel sparkað ef hann telur sér ógnað.

Lögð er áhersla á að nemendur læri að teyma hestinn sér við hlið og gæti þess að hesturinn stigi ekki á fætur þeirra.

Alltaf á að nota passlegan og vel spenntan reiðhjálm þegar farið er á bak.

Alltaf á að nota öryggisístöð þegar maður er að byrja í hestamennsku. Þá losnar maður frá hnakknum ef maður er svo óheppinn að detta af baki. Við skulum alltaf gera ráð fyrir þeim möguleika, en halda áhættu í lágmarki.

Á námskeiðið Íslenski hesturinn koma gjarnan margir í einu, jafnvel heilir bekkir. Þá er nemendum skipt í hópa og hver hópur vinnur með einn hest. Teymt er undir nemendum, sem flestir eru byrjendur. Mikilvægt er að fyrstu kynni af hestinum séu sem allra best. 

Á sumarnámskeiðunum Hestar og hestamennska eru fáir nemendur í einu og hver nemandi hefur sinn hest. Nemendur fara fyrst á hestbak inni í reiðskemmu og síðan í reiðgerðinu áður en farið er í reiðtúra. Framvinda námsins miðast við getu allra í hópnum.

Rétt er að benda á að nemendur eru slysatryggðir hjá sínum skóla og Námshestar hafa tryggingu fyrir nemendur sína.

Einnig má nefna að ég (Ragnheiður) lauk  námskeiði í skyndihjálp á haustdögum 2008 við Menntavísindasvið HÍ. Námsefnið er útbúið af Rauða krossi Íslands.