Útikennsla

Útikennsla fer fram utan skólastofunnar og getur falið í sér margt í senn. Í henni er fjallað um viðfangsefnin á faglegan hátt, en jafnframt lögð áhersla á persónulega upplifun nemendanna  og að þeim gefist tækifæri til að nota öll skilningarvitin við námið. Útikennslan höfðar til margra greindarþátta (sbr. umhverfis og náttúrugreind) og á því að henta lang flestum nemendum. 

blberg.jpg - 62.24 KbUnnt er að ná mörgum markmiðum náttúrufræðanna með kennslu utan veggja skólastofunnar. Nemendur geta lært að þekkja landslag og  landmótun og lært að rata um svæði. Þeir geta lært að  bera virðingu fyrir lífverum og umhverfi þeirra, lært að þekkja dýr, plöntur og mismunandi gerðir búsvæða, lært að vera úti, lært hvernig klæðnaður hentar og hvernig eigi að meta veðrið svo nokkuð sé nefnt.

Útikennslan gefur tilefni til að flétta saman námsgreinar skólans í þemu. Námsefnið getur þannig fengið heildrænna og merkingarbærara samhengi en ella. Í þessu sambandi má nefna að auðvelt er að samþætta list- og verkgreinar við útinám.

Viðfangsefni útikennslunnar geta verið  mjög fjölbreytt. Lögð er áhersla á að nota hesta við sem flest útikennsluverkefnin hjá Námshestum. Nokkrum verkefnum er lýst hér á vefnum.

Kennsluefni fyrir nemendur fylgir öllum verkefnunum. Það afhendir kennari áður en nemendur koma í útikennsluna.