Um bæinn

Bæjarnafnið Kúludalsá er dregið af á er rennur rétt austan við bæjarhúsin. Hún streymir fram úr djúpum dal. Ofan hans og austan við er Akrafjallið bungumyndað og heitir sá hluti þess Kúla en dalurinn er nefndur Kúludalur.

Munnmæli eru um annað nafn á bænum. Áttu tvær systur að hafa byggt í bæjarlandinu. Hét önnur Lágfóta og byggði hún í Lágustaðagili sem er austast í bæjarlandinu. Hin hét Klukka og byggði hún þar sem bæjarhúsin standa nú. Hét þá fjallið Klukka og dalurinn Klukkudalur.

gamli brinn.jpg - 33.77 Kb

Kúludalsá varð lögbýli nokkru eftir landnám. Bæjarins er getið í kirkjusögu landsins enda var hann í eigu kirkjunnar til 1788. Skömmu áður kom til tals að flytja biskupsstólinn frá Skálholti að Kúludalsá. Biskupinn, Hannes Finnsson mun hafa búið um nær tveggja ára skeið (1784-1785) á Kúludalsá ásamt konu sinni Þórunni Ólafsdóttur, dóttur Ólafs Stephensen stiftamtmanni á Innra-Hólmi. Bæjarhúsin í Skálholti höfðu hrunið í miklum jarðskjálfta í ágúst 1784. Skömmu síðar var biskupsstóllinn þó fluttur í Laugarnes í Reykjavík.


Bæjarhúsin á Kúludalsá um aldamótin 1900.

Heimild: Jón M. Guðjónsson. (1990). Torfbæir sunnan Skarðsheiðar: Teikningar Jóns M. Guðjónssonar. Akranesi: Byggðasafnið í Görðum: Íslandsmyndir.

Bæjarins Kúludalsár er fyrst getið í Harðar sögu og Hólmverja sem til er í handriti frá um 1400 og talin vera frá miðri 10. öld. Þar er meðal annars sagt frá því er þá Hólmverja (útilegumenn í Geirshólma innarlega í Hvalfirði)  tók að skorta mat. Gerðu þeir þá út leiðangur að næturlagi og fóru sjóleiðina. Tóku þeir land í vík einni austan við bæinn Innra-Hólm, gengu á Akrafjall og smöluðu öllum kindunum sem þeir náðu niður að lendingarstaðnum, króuðu þær af og hófu slátrun.

Í þann mund er Hólmverjar voru að byrja að flytja kjötið um borð vöknuðu heimamenn og voru fljótir að bregðast við. Söfnuðu þeir liði og réðust á útilegumennina. Sló í blóðugan bardaga. Skiptu Hólmverjar sér í tvö lið. Annað liðið staflaði kjötinu um borð en hitt barðist við heimamenn. Þegar einhver í bardagaliðinu féll eða varð sár bættist liðsauki úr hinum hópnum. Um síðir komust þeir af Hólmverjum sem lífs voru, um borð og lögðu frá landi. Þegar hér var komið sögu áttu hinir vígamóðu menn eftir að róa inn Hvalfjörðinn. Mun mótvindur hafa verið talsverður. Þeim tókst að komast á leiðarenda en sagan segir að útlagarnir hafi verið orðnir mjög þrekaðir er landi var náð í Geirshólma.