Námshestar

Starfsemi Námshesta er að Kúludalsá í Hvalfjarðarsveit í umsjá minni, Ragnheiðar Þorgrímsdóttur, kennara og bónda hér á bæ. Leiðarljós Námshesta er að efla útikennslu í greinum sem tengjast náttúru og umhverfi, enda er margt sem bendir til að betri námsárangur náist og námið höfði til fleiri barna, fari það fram á raunverulegum vettvangi.

"Námshestur" vísar bæði til manna og hesta. Sé maður duglegur að læra er maður gjarnan kallaður námshestur. Hjá Námshestum er litið svo á að allir nemendur geti orðið slíkir "hestar" fái þeir að njóta hæfileika sinna við rétt verkefni og í réttu umhverfi. Hestarnir sem notaðir eru við kennslu eru líka "námshestar." Nokkrir slíkir eru til á bænum og þeir hafa sannað gildi sitt. Kostirnir við að nota hesta við kennslu eru margir. Flest börn laðast að hestum og svo virðist sem athyglin skerpist og áhuginn vakni frekar á því sem fyrir augu og eyru ber þegar nemendur kynnast þessum öflugu og vingjarnlegu húsdýrum og vinna með þeim. Hestar virðast þannig geta með nærveru sinni bætt námsgetu og stuðlað að aukinni náttúruvitund auk ýmissa fleiri jákvæðra þátta.

Allt námsefni sem kennt er í útikennslunni byggir á markmiðum aðalnámsskrár grunnskóla og er aðlagað námsskrám einstakra skóla eftir þörfum og óskum.

Vegna þeirrar nýbreytni í kennsluháttum sem Námshestar brydda upp á var ég tilnefnd til Frumkvöðuls Vesturlands fyrir árið 2007 og Námshestar tilnefndir fyrir árið 2008. Það var mikil hvatning og þökk þeim sem stóðu að tilnefningunum.

Persónulegir hagir: Ég á tvö börn, Eddu Kristrúnu og Jón Óskar og þrjú barnabörn. Edda á bræðurna Dag Valgeir og Magnús Breka og er gift Trausta Frey Reynissyni.  Jón Óskar og Helena Wolimbwa eiga Söru Máney. Ég starfaði sem félagsfræðikennari við Fjölbrautaskólann á Akranesi 1978 - 1985, við Brekkubæjarskóla á Akranesi 1985 - 2002 og Klébergsskóla á Kjalarnesi 2013 - 2015. Ég vann sem bókasafnsfræðingur og deildarstjóri á Bókasafni Akraness um tíma og lauk MPA námi frá Háskóla Íslands haustið 2005. Svo hef ég starfað sjálfstætt inn á milli.

Helsta áhugamálið er náttúrlega hestarSmile Á myndinni erum við Sokki á ferð um Snæfellsnes. Sokki var merkilegur klár og höfðingi í samskiptum. ragga og sokki.jpg - 58.57 Kb