Mengunarslys hafa afleiðingar

Ragnheiður Þorgrímsdóttir:


Fyrir stuttu átti sér stað mengunarslys á Akranesi. Sementssíló við höfnina yfirfylltist með þeim afleiðingum að sement rauk út í umhverfið og olli tjóni. Þeir sem búið hafa á Akranesi þekkja vel lyktina frá Sementsverksmiðjunni meðan hún var starfrækt. Í suðvestanátt lagði fnykinn yfir bæinn og hesthúsahverfið í Æðarodda. Maður fór ekki á hestbak á slíkum dögum, þóttist vita að það væri ekki gott fyrir lungun. Nærri má geta hvernig loftgæðin hafa verið í grennd við yfirfulla sementssílóið um daginn.

Sannarlega eiga þeir skilið samkennd sem lentu í tjóni, fengu sement yfir bíla, húsþök og í öndunarfæri og vonandi verða greiddar sanngjarnar bætur. Endilega hættið ekki fyrr.

Sjálf hef ég lent í mengunarslysi og myndi ekki óska neinum þeirrar reynslu. Sem betur fer hefur hugsunarhátturinn breyst síðan mengunarslysið í Norðuráli átti sér stað sumarið 2006. Meiri skilningur ríkir og sterkari viðbrögð verða. En það er fleira sem skilur þessi tvö mengunarslys að.

Í fyrsta lagi: Á Akranesi sást hvað um var að ræða. Ekki var hægt að fela neitt. Strax var tekið til við að þrífa og tala um bætur til tjónþola. Aftur á móti var mengunarslysinu í Norðuráli 2006 haldið leyndu, en þá streymdi flúor óheftur út um eitt af þremur hreinsivirkjum verksmiðjunnar í nærri sólarhring. Af því að flúor er gas þá sést hann ekki. Enginn er til frásagnar um hversu mikið magn fór út, ekki einu sinni álverið, þó það hafi slegið upp einhverjum áætluðum tölum. Kannski segja lömbin sunnan undir Akrafjalli réttustu söguna, því í beinum þeirra haustið 2006 mældist amk. 30 falt það magn flúors sem eðlilegt getur talist. Það var sem sagt hvorki hægt að forða dýrunum né sjálfum sér meðan flúormengunin var sem mest. Ég hafði getað smalað hrossunum, sett þau inn í hús og flutt þau síðan í burtu ... en frétti ekki af slysinu fyrr en tveimur árum seinna og þá var ég búin að glíma við fordæmalaus veikindi í hrossunum sem byrjuðu skömmu eftir atburðinn.

Í öðru lagi þá hefur stóriðjan alla þræði vöktunar í hendi sér: Hvar á að vakta, hversu mikið, hvort mæla á eða bara skoða, hverjir eiga að vakta, hvernig upplýsingarnar eru settar fram. Hún velur verkfræðistofu og greiðir henni fyrir orðalag og útlitshönnun á skýrslu um niðurstöður vöktunarinnar. Þessara vafasömu „forréttinda“ njóta venjuleg fyrirtæki á Íslandi ekki, hvað þá almenningur.

Í þriðja lagi þá hefur stóriðjan aldrei þurft að greiða bætur til einstaklinga fyrir að menga, en það munu eigendur sílóanna á Akranesi væntanlega þurfa að gera, eins þó að slysið hjá þeim sé ekki síður „óvart“ en hjá Norðuráli á sínum tíma. Akurnesingar voru beðnir afsökunar um daginn, en slíkt virðist ekki hafa hvarflað að Norðurálsmönnum 2006. Til marks um hversu forhertir menn voru á þeim bæ má benda á svokallað „Grænt bókhald“ sem iðjuverið ber ábyrgð á og gefur út. Í hefti ársins 2006 stendur (bls. 7) að ekki hafi orðið mengunaróhöpp hjá fyrirtækinu á bókhaldsárinu 2006. Heftið kom út í maí 2007. Norðurál hefur komist upp með að láta þessa klausu í „Græna bókhaldinu“ standa.

Afleiðingar mengunarslyssins og mengunarálags eftir það, þ.e. skaðinn, eru ónýtir hagar og ég hef misst 21 hross vegna veikindanna. Vágesturinn mikli, flúor í of miklu magni, eyðileggur líffæri spendýra. Hrossin sem felld hafa verið á mínum bæ vegna veikindanna hafa fjórfalt meiri flúor í beinum sínum en hross frá ómenguðum svæðum. Flúor er eitt skæðasta eitur sem til er og auðvitað vill enginn hestamaður fá slíkan óþverra í sín hross. En um það hef ég aldrei verið spurð þ.e. hvort ég væri til í að fórna mínum hrossum fyrir álverið. Þau eru bara gerð að þolendum í þágu stóriðjunnar.

Í fjórða lagi. Samskonar atburður mun trúlega ekki endurtaka sig á Akranesi. Íbúar geta fylgst með og það eru viðurlög. Í Hvalfirði getur mengunarslys vel orðið án þess að íbúar séu látnir vita. Hreinsibúnaður má, skv. starfsleyfi, liggja niðri í 3 klst. án þess að íbúar fái um það vitneskju og það stendur ekkert í starfsleyfinu hversu oft slíkt má gerast. Og þrátt fyrir að mengunarskot frá Elkem séu vel sýnileg þá hefur reynst ómögulegt að fá forsvarsmenn þess til að skilja að slíkt háttarlag flokkist undir mannréttindabrot í nútíma þjóðfélagi. Elkem fær frjálsar hendur um að dæla mengun yfir byggð ból þegar hentar og kallar það „neyðarlosun.“

Ég skal viðurkenna að mér brá við að lesa á „fésbók“ skilaboð frá Akurnesingi þar sem hann lagði til að sementssílóið yrði flutt í burtu og datt honum helst í hug að setja það niður á Grundartanga (!) sem er reyndar hluti af landbúnaðarhéraðinu Hvalfirði með fjölda íbúa sem margir hverjir líða fyrir mengun sem nú þegar er þvingað upp á þá. Það býr nefnilega fólk í Hvalfirði.

Stöndum vörð um réttinn til heilnæms umhverfis!