Hamfarahlýnun og heimaslóðir

 

Utan úr heimi berast fréttir um náttúruhamfarir af áður óþekktri stærð. Stöðugt heyrast varnaðarorð vísindamanna sem telja aðeins róttækar aðgerðir í umhverfismálum geta bjargað lífi á jörðinni, það verði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til að sporna við hamfarahlýnun.

Stjórnmálamenn tjá sig gjarnan um þessa vá og hvetja almenning til aðgerða, enda hafa þeir verið kosnir til að taka á alvarlegum málum. Ýmis eru ráðin og jafnvel búfénaður er gerður að blóraböggli, enda étur hann gras og á það til að leysa vind. Smátt og smátt molnar undan von manns um að tekið verði af alvöru á þessum erfiðu málum, af ráðamönnum.

Nýleg frétt byggir ekki upp álit á kjörnum fulltrúum Hvalfjarðarsveitar og Akraneskaupstaðar sem hafa tekið höndum saman um kröfu til Landsvirkjunar/íslenska ríkisins um hagstæðara raforkuverð til iðjuveranna á Grundartanga. Kannski halda þeir að iðjuverin muni nota aukinn hagnað til að bæta mengunarvarnabúnað sinn, því stóriðjan er hinn mikli mengunarvaldur hér um slóðir. Enda þótt mengunin falli ekki beint undir innlendan kvóta þá lendir hún hér í bókstaflegri merkingu. Undirrituð hefur slæma reynslu af því, með fjórfalt magn flúors í hrossum, miðað við landsmeðaltal.

Þegar hægri höndin veit ekki eða vill ekki vita hvað sú vinstri gerir og það á tímum ótakmarkaðs aðgangs að upplýsingum, er eitthvað að. Gróðurhúsaáhrif frá iðnaðarsvæðinu á Grundartanga eru óumdeilanleg. Hægt er að hemja þau mun betur en nú er gert. Það yrði aðeins dýrara og ljóst er að iðjuverin hafa engan áhuga á slíkum útgjöldum og finna heldur ekki fyrir þrýstingi frá pólitíkusum á heimaslóðum.

Að glíma við þessi neikvæðu áhrif af rekstri iðjuveranna á Grundartanga er tvímælalaust stærsta verkefni í umhverfismálum sem bíður íbúa þessa svæðis. Við höfum ekki langan tíma til að hugsa okkur um. Það er því afar slæmt hversu sveitarstjórnarmenn eru leiðitamir við iðjuverin. Að þeir skuli á sama tíma og þeir hundsa hinar neikvæðu afleiðingar, vera allir til þjónustu reiðubúnir, þegar iðjuverin, eðli sínu samkvæmt, vilja auka hagnað sinn með því að lækka raforkureikninginn.

Sveitarstjórnarmenn úr Hvalfjarðarsveit og af Akranesi þyrftu að sýna þá staðfestu og ábyrgð gagnvart heimabyggðinni sem dugir til að iðjuverin fái ekki lengur að vakta sig sjálf, að mengunareftirlitið verði unnið af hlutlausum aðilum og að settur verði upp skilvirkari mengunarvarnabúnaður. Umhverfisstofnun er bókstaflega vandamál í þessu samhengi þar sem hún stendur í vegi fyrir einföldustu lagfæringum, svo sem að setja á ný upp loftgæðamæli norðvestan við iðjuverin í áttina að upptökum Berjadalsár, sem er aðalvatnsból Akurnesinga. Sveitarstjórnarmönnum hefur ítrekað verið bent á þessi atriði öll en þeir hafa látið sér fátt um finnast. Það getur nefnilega verið svo ótrúlega langt á milli orða og athafna, stundum jafnvel engin tenging.

Á degi íslenskrar náttúru, 16. september 2019

Ragnheiður Þorgrímsdóttir