Eitt hundrað ár
pabbi og mamma.jpg - 37.01 KbÞann 27. mars 2013 voru liðin eitt hundrað ár frá fæðingu pabba, Þorgríms Jónssonar bónda að Kúludalsá í Hvalfirði (f. 1913, d. 1996). Af því tilefni var þeim sem þekktu hann og mömmu, Margréti Kristófersdóttur húsfreyju og listakonu, boðið að Kúludalsá laugardaginn 23. mars.

Við hófum dagskrána við leiði pabba og mömmu í Akraneskirkjugarði. Ég flutti stutta tölu og minntist þess meðal annars hvað tengdi þau saman í upphafi, en það voru hestar. Tók ég með mér tvö hvít hross út í kirkjugarðinn og þau tóku á sinn hátt þátt í athöfninni. Karen Emilía Jónsdóttir, elsta barnabarnið, las heillaóskir í bundnu máli sem amma Emilía sendi pabba og mömmu á brúðkaupsdaginn þann 8. maí 1945 (friðardaginn). Jón Óskar, Hilmir Bjarki og Magnús Pétur lögðu blóm á leiðið og einnig á leiði Jóns Ragnars bróður okkar, en það er rétt hjá.

Síðan héldum við í kirkjuna á Innra-Hólmi. Enn minntist ég foreldranna, ævistarfsins og kirkjustarfsins sem stóð í marga áratugi. Pétur Hafþór Jónsson (og Ragnhildarson) frændi okkar spilaði falleg lög á orgel kirkjunnar. Síðan gengum við út í kirkjugarðinn þar sem foreldrar pabba hvíla, Ragnheiður Guðmundsdóttir húsfreyja frá Belgsholti í Melasveit og Jón Auðunsson bóndi og sjómaður frá Akranesi. Þar hvíla einnig foreldrar mömmu, Kristófer Pétursson silfursmiður frá Stóru-Borg í Vesturhópi og Emilía Helgadóttir hjúkrunarkona og ljósmóðir frá Litla-Ósi í Miðfirði og fleiri ættingjar. Blóm voru lögð á leiði.

Eftir þetta var haldið að næsta bæ, Kúludalsá. Við fengum okkur kaffi og náttúrlega einnig ríkulegt meðlæti (að hætti mömmu). Þar var brugðið upp myndum sem vörpuðu ljósi á lífsstarf bóndans á síðari hluta 20. aldar, en  í tíð pabba og mömmu hélt tæknibyltingin innreið sína og gjörbreytti búskap á Íslandi. Þau voru fljót að tileinka sér nýjungar sem létt gætu störfin og voru stundum með þeim fyrstu að stíga framfaraskrefin. Þau voru bæði hesthneigð og umgengust hestana af virðingu. Þó að hlutverk „þarfasta þjónsins“ breyttist og orka hans væri ekki lengur nýtt við búskapinn, voru alltaf til góðir reiðhestar á bænum. Pabbi var framfarasinnaður félagsmálamaður og beitti sér fyrir ýmsu sem varðaði almannaheill. Hann sinnti skólamálum, dýravernd, málefnum kirkjunnar, skógrækt og jarðrækt og hann var í forystu bænda í hreppnum um árabil, dyggilega studdur af mömmu sem einnig sinnti félagsmálum af alúð í kvenfélaginu Akurrós. Öllu þessu var reynt að koma að í myndasýningunni.

kristfer afi.jpg - 86.55 KbTengdafaðir pabba, Kristófer Pétursson silfursmiður, vann marga sína fegurstu gripi á verkstæðinu sem hann setti upp á Kúludalsá árið 1946 er þau amma fluttu að norðan og þar smíðaði hann í aldarfjórðung. Svo ánægjulega vill til að nýlega var verkstæði afa sett upp á sýningunni „Silfursmiður í hjáverkum“ í Þjóðminjasafninu. Verkstæðið er það eina varðveitta sinnar tegundar. Því var vel við hæfi að minnast einnig silfursmiðsins snjalla við þetta tilefni, enda einkenndust samskipti tengdafeðganna ætíð af vináttu og virðingu fyrir störfum hvors annars.
Bestu þakkir til ykkar allra sem komuð og tókuð þátt og lögðuð ykkar af mörkum til að dagurinn heppnaðist vel og að hann yljar í  minningunni.