Opið bréf 2

Eftirlitsstofnun – fyrir hvern?
Opið bréf – hið síðara - til umhverfisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, frá bónda í Hvalfirði.


Ágæta Svandís.
Hef móttekið afrit af bréfi undirrituðu af Magnúsi Jóhannessyni og Sigurbjörgu Sæmundsdóttur hjá Umhverfisráðuneytinu, f.h. ráðherra, dags. 11. apríl 2012. Bréfið er stílað á Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Í bréfinu er sent áfram erindi frá mér til umhverfisráðherra, dags. 28. mars s.l.
Það er eðlilegt að senda ráðherra landbúnaðarmála erindið þannig að hann geti einnig kallað eftir svörum yfirdýralæknis. En mikilvægt var að umhverfisráðherra fengi erindið fyrst, því fleiri en ein eftirlitsstofnun hafa komið að máli veiku hrossanna í Hvalfirði.
Undanfarin ár hef ég reynt að fá Umhverfisstofnun, sem er opinber eftirlitsstofnun umhverfismála í landinu, til að gera ítarlega rannsókn á veikindum hrossanna minna. Þegar veikindin bar að höndum sneri ég mér fyrst til Umhverfisstofnunar og vænti góðra undirtekta. Þeir forsvarsmenn stofnunarinnar er komu að málinu, sýndu því ekki meiri áhuga en svo að beiðni um hlutlægar og áreiðanlegar rannsóknir var hafnað með formlegum hætti af Umhverfisstofnun. Byggði sú ákvörðun meðal annars á áliti dýralæknis hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun, Sigríði Björnsdóttur. Álit hennar grundvallaðist ekki á haldbærum rannsóknum, miklu fremur á tilgátum. Síðar var þessi sami dýralæknir sendur af Matvælastofnun til að gera úttekt á hrossum mínum, þó fyrri aðkoma að málinu valdi efasemdum um hæfi hennar. UST og MAST hafa báðar komið að máli veiku hrossanna í Hvalfirði, þær hafa unnið saman og báðar hafa þær brugðist í eftirlitshlutverki sínu.
Hjá ráðuneyti þínu liggur stjórnsýslukæra frá mér vegna fyrrnefndar afgreiðslu Umhverfisstofnunar.
Umhverfisstofnun afgreiðir tillögur iðjuveranna á Grundartanga um umhverfisvöktun. Stofnunin hefur sem eftirlitsstofnun afgerandi áhrif á framtíð náttúru og lífríkis Hvalfjarðar.
Í nýrri vöktunaráætlun sem nú hefur litið dagsins ljós og UST hefur samþykkt, er ekki gert ráð fyrir skipulegum mælingum á sýnum úr hrossum, reyndar engum mælingum á hrossum fyrr en eftir allmörg ár og þá á sýnum úr völdum gripum. Með þeirri nálgun að vandanum sem Umhverfisstofnun styður, getur liðið langur tími áður en haldbærar upplýsingar liggja fyrir um mengandi efni í beinum og líffærum dýranna. Þá er etv. orðið of seint að grípa inn í.
Til viðbótar þeim upplýsingum sem til voru þegar fyrra opna bréfið til þín var skrifað, liggja fyrir nýjar upplýsingar um magn flúors í lifur og nýra 15 vetra gamallar hryssu frá Kúludalsá, en hún var felld 19. mars s.l. Áður en ég greini frá niðurstöðum mælinganna og öðru sem tengist þeim finnst mér mikilvægt að fá svör við spurningunum sem bornar voru fram í opna bréfinu dags. 28. mars s.l.
Ég óska eftir því að þú kallir til  sérfræðinga innan þíns ráðuneytis eða utan að og fáir þá til að svara eftirfarandi spurningum: Hver eru viðmiðunarmörk og hættumörk flúors í líffærum (einkum lifur, nýrum og milta) hrossa? Hvernig lýsir heilsufar hrossa sér ef magn flúors í þessum líffærum fer yfir hættumörk? Eru til sambærilegar viðmiðunartölur og lýsingar á heilsufari vegna flúors í líffærum sauðfjár? Ef svo er, hverjar eru þær?
Á svörunum veltur framhald málsins, - fyrir hrossin vegna heilsu þeirra og framtíðar, fyrir mig sem eiganda þeirra og umsjónarmanns og ekki síst fyrir Umhverfisstofnun sem samþykkir vöktunaráætlun vegna iðnaðarsvæðisins á Grundartanga og hefur hafnað umbeðnum rannsóknum vegna heilsubrests hrossa við Hvalfjörð. Ágæti ráðherra. Er mögulegt að þú getir orðið við þessari bón?
Að lokum: Umhverfisráðuneytið og stofnanir þess þurfa að vera tilbúin að skoða gaumgæfilega mál er upp koma og varða mengun náttúru og lífríkis. Sönnunarbyrði, þ.m.t. söfnun gagna og rannsóknir, í meintum mengunarmálum ætti ekki að hvíla á herðum einstaklings enda munu niðurstöður mælinga verða kynntar er fram líða stundir og munu nýtast bæði á opinberum vettvangi og fyrir almenning í landinu.
Hjá ritara umhverfisráðherra hefur undanfarnar vikur legið beiðni frá mér um viðtal við þig og ítreka ég hana hér með.
Kúludalsá, 18. apríl 2012.
Með góðri kveðju,

Ragnheiður Þorgrímsdóttir
bóndi að Kúludalsá í Hvalfirði