Opið bréf 1
Eftirlitsstofnun – fyrir hvern?
Opið bréf til umhverfisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur frá bónda í Hvalfirði.


Sæl Svandís.
Tilefni erindisins eru niðurstöður Matvælastofnunar, dags. 19. mars sl. um orsakir heilsubrests hrossa á býlinu Kúludalsá við Hvalfjörð.
Í upphafi skal á það minnt að skammt austan við Kúludalsá starfar álver Norðuráls á Grundartanga með 300.000 tonna framleiðslugetu á ári. Austanáttir eru ríkjandi á svæðinu. Hættulegasta eiturefnið sem berst frá iðjuverunum á Grundartanga er án efa flúor. Þekkt er að grasbítum í nágrenni álvera stafar veruleg hætta af flúormengun. Útigangshross eru í sérstakri hættu því þau eru á beit allan ársins hring. Mikið magn flúors skemmir bein og tennur og getur raskað starfsemi líffæra. Flúor hefur m.a. áhrif á starfsemi skjaldkirtils en hann stjórnar efnaskiptum líkamans.
Sérkennileg veikindi hafa hrjáð hross á Kúludalsá um nokkurra ára skeið, þ.e. síðan vorið 2007. Fram til þess tíma var heilsa hrossanna með ágætum.
Eftir að veikindin komu upp gekk ég lengi á eftir bæði Umhverfisstofnun og Matvælastofnun (MAST), að þær gerðu ítarlega rannsókn á hrossum á bænum, þannig að hægt yrði að varpa ljósi á orsakir veikindanna. Undir þessa beiðni tók yfirdýralæknir hjá MAST, Halldór Runólfsson, að lokum s.l. vor, eftir mjög eindregna áskorun frá mér. Eftir á að hyggja hefði ég betur hlíft honum við þessu ónæði.
Ég lagði til þrjú hross í rannsóknina. Þau sýndu öll einkenni veikindanna, en mismunandi mikil. Öll voru hrossin á besta aldri. Flutti ég þau til Hvammstanga þann 24. júní s.l. þar sem þau voru felld og sýni tekin, þ.e. lifur, nýru, fita og bein. Ég flutti svo sýnin á Keldur sama dag, að boði dýralæknis hrossasjúkdóma hjá MAST, Sigríðar Björnsdóttur.
Við undirbúning með hlutaðeigandi yfirvöldum, lagði ég sérstaka áherslu á að mælt yrði flúor í öllum sýnunum. Ástæður eru einkum þessar: Síðsumars 2006 varð mengunarslys í álveri Norðuráls þannig að flúor slapp óhindrað út um hreinsivirki í talsvert á annan sólarhring. Framleiðslugeta álvers Norðuráls var aukin í 300.000 tonn árið 2007 og erfitt er að hemja útsleppi flúors meðan á slíku stendur. Eftir stækkunina hefur álver Norðuráls á Grundartanga leyfi til að losa a.m.k. 150 tonn af flúori út í andrúmsloftið árlega. Flúormælingar í andrúmslofti vestan við álverið eru ekki gerðar yfir vetrartímann (með samþykki Umhverfisstofnunar).
Ég benti ítrekað á þann möguleika að stöðug inntaka flúors allan ársins hring með fyrrnefndum „aukaskömmtum“ gæti raskað efnaskiptum hjá hrossunum. Þann þátt þyrfti því nauðsynlega að rannsaka. Hvorki dýralæknir hrossasjúkdóma hjá MAST né  yfirdýralæknir, Halldór Runólfsson, hlustuðu á mig. Það eina sem komst að hjá þeim var að leita að merkjanlegum áhrifum fúors á bein og tennur. Það tókst þó ekki betur til en svo að dýralækni hrossasjúkdóma yfirsást verulegt og óeðlilegt tannslit hrossa á bænum í sérstakri skoðunarferð. Óhætt er að segja að ábendingar heimamanna um óeðlileg einkenni í hrossunum hafi verið hundsuð í þessari skoðun, sem fram fór þann 22. ágúst s.l.
Skemmst er frá því að segja að úttekt MAST fól ekki í sér mælingar á flúori í lifur, nýrum og fitusýnum. Aftur á móti var flúor mælt í beinsýnum. Niðurstaðan er að í sýnunum er um það bil þrefalt meira flúor en áætlað landsmeðaltal. Það segir sína sögu, enda þótt fulltrúar MAST sjái ekki ástæða til að gera veður út af því.
Í nóvember s.l. lét ég mæla flúor í sýnum úr hryssu frá Kúludalsá.  Töku sýnanna sem m.a. voru úr lifur og milta annaðist dýralæknir og rannsóknarstofa með vottun annaðist mælingarnar. Ég greiddi að sjálfsögðu kostnaðinn.
Í sýnunum kom í ljós umtalsvert magn flúors,- reyndar svo mikið að hefði manneskja innbyrt 250 g. af lifur dýrsins hefði viðkomandi fengið í sig 24 faldan leyfilegan dagsskammt samkvæmt stöðlum EPA. Auðvitað snæðir enginn lifur úr fullorðnum hesti, en spyrja má hvernig viðkomandi dýri hafi liðið með svo mikið magn flúors í skrokknum og hvaða áhrif það hafði á starfsemi líffæranna og þar með á heilsufarið.
Þessi hryssa hafði ekki borið sitt barr síðan sumarið 2007, en hún var eitt af fyrstu hrossunum sem veiktust á bænum. Margt var reynt til að lækna hana því hún var ágætur gripur og verðmætur eiganda sínum. Hver einasti góður gripur sem tapast úr atvinnurekstri er byggist á vel tömdum og þægum reiðhrossum, þýðir umtalsvert fjárhagslegt tjón. Í því sambandi má nefna að fella hefur þurft sex hross á bænum s.l. ár vegna fyrrnefndrar vanheilsu, auk þeirra sem áður hafa verið felld af sömu orsökum.
Fulltrúar MAST voru ekki fáanlegir til að láta mæla flúor í sýnum úr líffærum sem ég lagði þeim í hendur og ég lít það að sjálfsögðu mjög alvarlegum augum, einkum eftir að niðurstaða þeirra var gjörð kunnug. Ég reyndi eftir bestu getu að vinna með stofnuninni.
Í kjölfar niðurstöðu MAST lagði ég eftirfarandi spurningar fyrir yfirdýralækninn, Halldór Runólfsson:
„Hver eru viðmiðunarmörk og hættumörk flúors í líffærum (einkum lifur, nýrum og milta) hrossa? Hvernig lýsir heilsufar hrossa sér ef magn flúors í þessum líffærum fer yfir hættumörk? Eru til sambærilegar viðmiðunartölur og lýsingar á heilsufari vegna flúors í líffærum sauðfjár? Ef svo er, hverjar eru þær?“
Óskaði ég svara við spurningunum hið allra fyrsta og bað um fræðileg rök til grundvallar svörunum. Þau hafa ekki borist.
Nú er athugunum Matvælastofnunar á heilsubresti hrossa minna lokið, með litlum sóma fyrir stofnunina. Með þá reynslu sem ég hef fengið styð ég eindregið tillögur sem fram hafa komið um stjórnsýsluúttekt á stofnuninni.
Reynt verður að halda áfram rannsóknum á veikindum hrossa á Kúludalsá. Vissulega er súrt í broti að þurfa allt í senn, að hlúa að veikum hrossum, glíma við fjárhagsskaða vegna tapaðra hrossa úr atvinnurekstri og greiða umtalsverðar upphæðir vegna rannsókna. En þessar nýjustu niðurstöður benda til að ekki sé til einskis barist.
Ég bið þig að sjá til þess að yfirdýralæknir hjá MAST svari spurningum mínum hið allra fyrsta. Jafnframt bið ég þig um að láta fylgjast gaumgæfilega með náttúru og lífríki Hvalfjarðar í framtíðinni, - betur en gert hefur verið hingað til.
Hvalfirði, 28. 3. 2012
Með kveðju,
Ragnheiður Þorgrímsdóttir
Kúludalsá