3. Tilkynning til Norðuráls


Kúludalsá í Hvalfjarðarsveit, 6. apríl 2009


Norðurál ehf. Grundartanga
Óskar Jónsson framkvæmdastjóri tækni- og umhverfissviðs
Umhverfisstofnun
Kristín Linda Árnadóttir forstjóri

Efni: Formleg tilkynning um veikindi hrossa í grennd við athafnasvæði Norðuráls ehf. á Grundartanga

Ágætu viðtakendur.

Undirrituð tilkynnir hér með forsvarsmönnum Umhverfisstofnunar og Norðuráls ehf. á Grundartanga með formlegum hætti að áður óþekkt veikindi í hrossum hafa gert vart við sig á bænum Kúludalsá í Hvalfjarðarsveit. Ykkur mun að einhverju leyti vera kunnugt um þetta mál vegna rannsóknar á sýnum úr beinum hrossa er gerð var fyrir skömmu og Norðurál ehf. gaf vilyrði fyrir að greiða.

Veikindin hrossanna hófust í júní 2007 og stóðu fram í nóvember það ár. Einng varð vart við einkenni þeirra sumarið 2008. Dýralæknir var kallaður til, fyrst í júní 2007 (Hildur Edda Þórarinsdóttir) og leitað var ráða og fengin lyf hjá öðrum dýralækni en allt kom fyrir ekki. Lyf hrifu ekki og dýralæknir sá er aðallega stundaði hrossin hafði hvorki ráð er dugðu, né skýringar. Eftir nokkrar tilraunir með lyfjagjöf og aðhlynnningu sumarið 2007 lauk hennar aðkomu að málinu.

Hrossin veiktust misjafnlega mikið. Fimm hross veiktust alvarlega. Eitt þeirra þurfti að fella í júlí 2007 og tvö í nóvember 2008 þegar sýnt var að þau myndu aldrei ná sér. Þrjú hross eru því dauð vegna þessa sjúkdóms. Tvö hrossanna lifa enn. Það ber að þakka nuddi er þau fengu frá höfuðbeina- og spjaldhryggjarjafnara, Margréti Báru Jósefsdóttur á Akranesi. Þau munu bera merki veikindanna áfram og ekki þola mikla brúkun. Auk þess fengu mörg hross einkenni veikinnar þó þau veiktust ekki jafn afgerandi og þessi fimm sem áður er getið. Veikindanna varð einnig vart sumarið 2008 en þau voru mun vægari.

Eins og fyrr segir hefur aldrei áður orðið vart við sjúkdóm er líkist þessum hér á bæ. Hrossin hafa búið við svipað atlæti ár eftir ár og var í engu breytt út af venju með fóðrun þeirra veturinn 2006-2007. Sama er að segja um veturinn 2007-2008. Umhirða og fóðrun hrossanna stóðust vel mat forðagæslueftirlitsmanns.

Að vandlega hugsuða máli og eftir að hafa farið vel yfir aðstæður álykta ég að orsakir veikindanna séu mengun af völdum flúors í umhverfi hrossanna. Flest bendir til að hér sé um að ræða bráða flúoreitrun sem staðið hafi yfir tímabundið og náð að trufla líkamsstarfsemi hrossanna. Slík bráð flúoreitrun þarf ekki að koma sterklega fram í beinsýnum. Flest hrossin hafa náð að jafna sig eftir að álaginu linnti. Það ber þó að hafa í huga að ekki er hægt að finna út hvort varanlegur skaði hefur orðið á beinum eða líffærum þeirra á meðan þau eru á lífi.

Gerði ég grein fyrir þessari ályktun og færði rök fyrir henni á fundi, sem haldinn var að tilhlutan sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar í Miðgarði 31. mars síðastliðinn. Var fundurinn haldinn til kynningar á mælingum á flúori og rannsóknum á áhrifum flúors í Hvalfirði. Því miður voru fulltrúar frá Umhverfisstofnun og Norðuráli ehf. á Grundartanga ekki staddir þar eins og ég hafði þó vonast eftir og reyndar talið víst, einkum þar sem lýst hefur verið yfir áhuga á rannsóknum á hrossum af hálfu Norðuráls ehf. Til að bæta þetta upp er ég reiðubúin að fjalla um þessi tilteknu veikindi hrossanna og umhverfisaðstæður þeirra á Kúludalsá sumarið 2007 og 2008 hvenær sem er.

Á fundinum í Miðgarði þann 31. mars s.l. kom meðal annars fram að mjög veikar forsendur eru fyrir ákvörðun um hættumörk fyrir hross vegna flúoreitrunar. Litlar rannsóknir liggja fyrir. Umhverfisstofnun hefur ekki haft frumkvæði að slíkum rannsóknum og Norðurál ehf. hefur ekki tekið þátt í kostnaði við rannsóknir á hrossum fyrr en nú í haust.

Jafnframt því sem ég tilkynni ykkur formlega um veikindi hrossanna á Kúludalsá lýsi ég því yfir að ég tel að orsakir þeirra séu mengun vegna flúors frá álveri Norðuráls ehf. á Grundartanga. Fer ég fram á að haldinn verði opinn fundur um málið, fundur þar sem fulltrúar Umhverfisstofnunar og fulltrúar Norðuráls ehf. koma, einnig dýralæknar sem komið hafa að málinu, fulltrúar sveitarstjórna Hvalfjarðarsveitar og Kjósarhrepps og aðrir sem áhuga hafa. Ég mælist til að fundurinn verði haldinn eigi síðar en föstudaginn 17. apríl næstkomandi.

Ég vek athygli á því að hagsmunir mínir varða ekki eingöngu missi hestanna sem veiktust, heldur snúast þeir um grundvöll atvinnustarfsemi minnar og þá einnig lífsafkomu. Því vænti ég þess að á málinu verði tekið af fyllstu fagmennsku og sanngirni.

Virðingarfyllst,


_____________________
Ragnheiður Þorgrímsdóttir
Kúludalsá
Hvalfjarðarsveit
s. 897-9070 / 431-2150
Þetta tölvupóstfang er varið gegn ruslpósts þjörkum, Þú verður að hafa JavaScript virkt til að sjá það.

Afrit fá eftirtaldir aðilar:


Laufey Jóhannsdóttir sveitarstjóri Hvalfjarðarsveitar
Sigurbjörn Hjaltason oddviti Kjósarhrepps
Arnheiður Hjörleifsdóttir form. Umhverfis- og náttúruverndarnefndar Hvalfjarðarsveitar
Sigurður Sigurðarson dýralæknir
Gunnar Gauti Gunnarsson héraðsdýralæknir
Hildur Edda Þórarinsdóttir, dýralæknir