Búskapurinn |
![]() ![]() Heyskapur árið 1954. Afi Kristófer snýr heyinu með hrífu. Pabbi notar vélaraflið til að snúa heyinu. Meðan afi hafði heilsu til þá var hann mjög liðtækur við að snúa og raka saman heyi meðan heyskapur stóð yfir. Honum fannst ekki viðeigandi að láta heydreifar liggja eftir á túninu þegar búið var að taka saman heyið. Á Litlu-Borg þar sem hann bjó var erfitt að afla heyja, túnin voru litil og hann þurfti að slá smá bletti hér og þar um landareignina. Hann kunni að meta góða tuggu og lét ekki sitt eftir liggja að koma henni í hús. ![]() ![]() Á myndinni til vinstri eru pabbi og afi að búa til heygalta heima við bæinn. Þetta var gert þegar hlöðurnar voru orðnar fullar. Við krakkarnir hjálpum til eftir bestu getu. Húsið hans afa sést á bak við. Ártalið er líklega 1959. ![]() ![]() Um 1960 var mjög vinsælt að byggja turna til að geyma í blautt hey. Þegar búið var að geyma það þar um tíma súrnaði það og var kallað súrhey. Þessi aðferð við að verka og geyma hey var einkum notuð þegar veðrátta hentaði ekki til að þurrka hey. Mörgum er minnisstætt sumarið 1955 þegar rigndi nær samfellt allt sumarið og bændur lentu í miklum vandræðum við að afla heyja. ![]() Heyhleðsluvagninn kominn til sögunnar. Enn þarf að moka í blásarann og stýra honum inni í hlöðunni. Þetta voru mjög erfið störf sem við krakkarnir og unglingarnir á bænum tókum þátt í af öllu afli. ![]() Sú aðferð að binda þurrt hey í litla bagga (10-20 kg.) var notuð fram yfir 1990. Eftir það var farið að rúlla heyinu upp í stórar rúllur eða binda það í svokallaða stórbagga og vefja svo heyið inn í plast. Sú aðferð er ennþá notuð. Hlöðurnar standa tómar eða hafa verið teknar til annarra nota því baggana má geyma úti. Með þessari aðferð hefur heyskapurinn orðið miklu léttari. Fleira þurfti að gera á bænum en að afla heyja. Á næstu tveimur myndum má sjá vorsmölun og rúningu. ![]() Hér er búið að smala fénu saman að vorlagi. Ártalið er líklega 1954. Við stillum okkur upp svo mamma geti tekið ljósmynd. Talið frá vinstri: pabbi, Kristófer afi, Kristófer bróðir, ég, Jón bróðir og kaupakonan, Rúna Gísladóttir. ![]() Þessi mynd er tekin upp úr 1960 og hún er í lit! Við erum að rýja í blíðskaparveðri. Sjá má að eitt lambið hefur sloppið út fyrir girðingu. Það hefur örugglega kostað hlaup hjá einhverjum því þess var vandlega gætt að lömbin týndu ekki mömmu sinni. ![]() Svo var stundum skroppið á hestbak. Myndin er frá 1960. Heimafólkið er að leggja úr hlaði. Lengst til vinstri er Hilda sem var sumarstelpa á bænum, svo er mamma á góða hestinum sínum honum Lokki. Hann tölti alltaf, alveg sama hvort einhver var á baki honum eða ekki. Við hlið hennar er Kristófer bróðir, síðan Poul, danski vinnumaðurinn, þá kaupakona og ég er lengst til hægri á Bleik gamla. |