Welcome to Kúludalsá
You find the tourist information in the left column.

kort.png - 515.11 Kbtour_operator1.jpg - 67.95 Kb

feraskipuleggjandi1.jpg - 68.26 Kb

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 
Umhverfisstofnun kærð
Hér má lesa kæru mína til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna ákvörðunar Umhverfisstofnunar að veita Norðuráli á Grundartanga nýtt starfsleyfi, en það felur í sér framleiðsluaukningu á áli og mjög rúmar heimildir fyrir losun flúors. Nú þegar, með samþykkt nýja starfsleyfisins, getur Norðurál aukið losun flúors um rúm 50% frá því sem var árið 2014 (samkvæmt upplýsingum frá Norðuráli)  án þess að nokkur fái rönd við reist. Sjá einnig kæru Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð þar sem fjallað er um losunarheimildir álversins (umhverfisvaktin.is)

Hér er slóðin á frásögn um veikindi hrossanna á Kúludalsá http://www.namshestar.is/index.php?option=com_content&view=article&id=191&Itemid=165&lang=en


Kúludalsá í Hvalfirði 14. janúar 2016


Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála
Nanna Magnadóttir formaður
Skuggasundi 3
101 Rvk.


Þann 16. desember 2015 gaf Umhverfisstofnunar út nýtt starfsleyfi fyrir Norðurál ehf. á Grundartanga, með gildistíma frá 16. des. 2015 til 16. des. 2031. Undirrituð, Ragnheiður Þorgrímsdóttir sem er ábúandi á Kúludalsá við Hvalfjörð, legg hér með fram kæru til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna þessarar ákvörðunar Umhverfisstofnunar.

Kæruefni og rökstuðningur:

1.    Kært er að Umhverfisstofnun hafi ekki aflað gagna til að ganga úr skugga um réttmæti framkominna ábendinga um áhrif flúors á heilsufar hrossa á Kúludalsá, áður en ákvörðun var tekin um að veita Norðuráli hið nýja starfsleyfi.

Kærandi hefur síðan vorið 2007 glímt við veikindi í hrossum á bæ sínum, Kúludalsá við Hvalfjörð. Veikindin hófust fljótlega eftir mengunarslys í Norðuráli á Grundartanga í ágúst 2006. Sjá greinargerð á vef undirritaðrar, namshestar.is um veikindi hrossanna og aðkomu Umhverfisstofnunar, ásamt fleiri upplýsingum. http://www.namshestar.is/index.php?option=com_content&view=article&id=191&Itemid=165&lang=en

Umhverfisstofnun gerði heimamönnum ekki grein fyrir mengunarslysinu 2006 og hefur gengist við því án þess að geta útskýrt aðgerðarleysið. Eftir mengunarslysið voru ekki gerðar mælingar á vegum Umhverfisstofnunar til að kanna áhrif óhappsins á umhverfið.

Að frumkvæði undirritaðrar hefur, allt frá árinu 2009, verið safnað upplýsingum um flúor í beinsýnum hrossa frá Kúludalsá. Vísbendingar um að flúor hafi haft áhrif á  heilsufar hrossanna styrkjast með hverju sýni sem mælt er. Niðurstöðurnar sýna margfalt magn flúors miðað við sýni úr hrossum sem verið hafa fjarri flúormengun. Sama er að segja um mælingar flúors í mjúkvefjum hrossanna.

Umhverfisstofnunar hafnaði beiðni undirritaðrar um rannsókn á veikindum hrossanna, eftir að hafa haft erindið til meðferðar í tvö ár. Umhverfisstofnun hefur ekki komið að neinum umhverfismælingum á býlinu Kúludalsá vegna téðra veikinda, þrátt fyrir mengunarslysið í Norðuráli.

Eftir höfnun Umhverfisstofnunar hefur Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið haft forgöngu um að taka málið upp og fengið sérfræðinga í lið með sér. Forsvarsmönnum Umhverfisstofnunar er kunnugt um þessa ráðstöfun. Umhverfisstofnun hefði getað kynnt sér stöðu verkefnisins. Þá hefði stofnunin væntanlega ekki birt eftirfarandi í greinargerð sinni með starfsleyfisveitingunni:

„ekki liggja fyrir vísbendingar um orsakatengsl milli flúormengunar og ástands hrossanna.“

Trúlega hefði stofnunin ekki heldur birt eftirfarandi:

„Ekki liggur fyrir að þetta atriði sé ástæða þess að heilsu hrossanna hafi hrakað.“

Áréttað skal, að þrátt fyrir stöðugt ný tilfelli veikinda í hrossum á Kúludalsá síðan 2006, hefur Umhverfisstofnun ekki lagt í að rannsaka, eða hlutast til um að láta rannsaka á áreiðanlegan hátt hvort flúor eða önnur efni er stafa frá álbræðslu geti hugsanlega hafa valdið heilsubresti í hrossunum.

Umhverfisstofnun gat haft þann aðgang að upplýsingum um hrossin og veikindi þeirra sem hún kærði sig um, en hún kynnti sér ekki málið. Það bar henni þó að gera samkvæmt Stjórnsýslulögum nr. 37/1993, áður en ákvörðun var tekin um nýtt starfsleyfi til Norðuráls.

Í nýja starfsleyfinu fær Norðurál mun rýmri losunarheimildir fyrir flúor heldur en álver Alcoa, á þeim forsendum að álver Norðuráls sé eldra. Aðeins hluti þess er eldri en álver Alcoa.

Erfitt mun að reynast að sanna í hversu miklu mæli Norðurál nýtir sér hinar rúmu losunarheimildir.

Þess er krafist að fellt verði úr gildi starfsleyfi fyrir Norðurál frá 16. 12. 2015 og að þar til bærir opinberir aðilar gangi úr skugga um réttmæti framkominna ábendinga um möguleg áhrif flúors á heilsufar hrossa á Kúludalsá, áður en ákvörðun verður tekin varðandi nýtt starfsleyfi fyrir Norðurál.

2.    Undirrituð kærir þau umhverfismörk sem Umhverfisstofnun heimilar í nýju starfsleyfi til Norðuráls vegna flúormengunar utan þynningarsvæðis fyrir flúoríð.

Ítrekað hefur Umhverfisstofnun verið bent á að þau umhverfismörk sem gilt hafa séu umdeild og flúor hafi valdið skaða þó þessi mörk séu mun lægri.

Í grein 1. 10 í nýju starfsleyfi fyrir Norðurál segir:
Umhverfismörk utan þynningarsvæðis fyrir flúoríð eru sett 0,30μg/m3 af flúoríði og mörk fyrir heildarflúor eru sett 0,40μg/m3, af flúoríði reiknað sem meðaltal fyrir tímabilið 1. apríl til 30. september ár hvert.

Umhverfisstofnun hefur ekki tekið tillit til réttmætis framkominna athugasemda varðandi umhverfismörkin. Né heldur hefur Umhverfisstofnun tekið tillit til þess að miða skuli umhverfisáhrif við hæstu gildi í útsleppi flúors en ekki við meðaltöl. Ljóst er að hæstu gildi skaða mest.

Bent skal á að í skýrslu WHO sem Umhverfisstofnun vísar til, er lögð mikil áhersla á það, hversu varlega þurfi að fara í umgengni við flúor í umhverfinu, hversu lítið magn þarf til að valda skaða, sé flúorálag til staðar yfir langan tíma og hversu mikilvægar rannsóknir eru í þessu sambandi (sjá kafla 11: CONCLUSIONS AND RECOMMENDATIONS FOR PROTECTION OF HUMAN HEALTH AND THE ENVIRONMENT).

Undirrituð hefur kynnt sér fræðilegar umfjallanir um áhrif flúors á líkama spendýra, m.a. veikindi hrossa í Colorado í Bandaríkjunum en þau höfðu flúor“bætt“ drykkjarvatn til neyslu, með langtum lægra flúorgildi heldur en umhverfismörk í starfsleyfi Norðuráls leyfa. Sjá grein: http://www.fluorideresearch.org/391/files/3913-10.pdf Í kaflanum „Discussions“  koma fram mjög athyglisverðar upplýsingar er varða það hvað hefur haft áhrif á niðurstöðu um áætluð þolmörk (og þá einnig umhverfismörk) vegna flúors.

Undirrituð krefst þess að fellt verði úr gildi starfsleyfi til Norðuráls frá 16. 12. 2015 og að rannsakað verði á ítarlegan hátt hversu mikið íslensk húsdýr og þá einkum hross, þoli af flúori í náttúrlegu umhverfi sínu, beitarhögum, vatnsbólum og túnum þar sem heyja er aflað, áður en ákvörðun verður tekin varðandi nýtt starfsleyfi fyrir Norðurál.

3.    Undirrituð kærir þá ákvörðun Umhverfisstofnunar að ekki sé, í nýju starfsleyfi Norðuráls, tekið tillit til kröfunnar um að flúor í andrúmslofti sé mældur allan ársins hring.

Frá því er Norðurál á Grundartanga hóf starfsemi sína, hafa tölur um flúormagn í andrúmslofti á ársgrundvelli, utan þynningarsvæðis iðjuversins fyrir flúor, verið byggðar á ágiskunum.

Ekki er unnt að skilja ákvæði greinar 1.10 á annan hátt en að Umhverfisstofnun sé enn leggja í a.m.k. fjögurra ára óvissuferli þar sem hvorki stofnunin né aðrir fá vitneskju um flúormagn í andrúmslofti yfir vetrartímann og þar með á ársgrundvelli. (Starfsleyfi Norðuráls verður einungis endurskoðað á fjögurra ára fresti nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi.)

Mikilvægt er að krafan um að mældur sé flúor í andrúmslofti allan ársins hring nái fram að ganga, ekki síst í ljósi þess að flúormagn í andrúmslofti eykst yfir vetrartímann (miðað við sama útsleppi og að sumri til) vegna þess að í kaldara lofti er flúor lengur að berast í burtu frá upphafsstað.

Enda þótt flúormælingar séu skilgreindar sem vöktun á umhverfisáhrifum, þarf að festa þennan þátt í starfsleyfi, þannig að honum verði sinnt. Ekki er nægjanlegt að setja ákvæði um þetta seinna meir, þ.e. í vöktunaráætlun sem Norðurál hefur frumkvæði að því að móta og greiðir fyrir beint úr eigin vasa.

Vissulega hefði Umhverfisstofnun fyrir löngu átt að vera búin að taka upp mælingar á flúori í andrúmslofti allan ársins hring en ekki byggja á áætlunum varðandi þennan áhrifamikla umhverfisþátt. Minnt er á rannsóknarskyldu opinberra stofnana fyrir töku ákvarðana, (eins og starfsleyfi fyrir mengandi iðnað er), samkvæmt Stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Undirrituð krefst þess að fellt verði úr gildi starfsleyfi fyrir Norðurál frá 16. 12. 2015. Gengið verði úr skugga um það með haldgóðum mælingum, af þar til bærum opinberum aðilum, hvert flúormagn er í andrúmslofti á ársgrundvelli, um a.m.k. tveggja ára skeið, áður en ákvörðun verður tekin varðandi nýtt starfsleyfi fyrir Norðurál á Grundartanga.

4.    Kærð er sú ákvörðun Umhverfisstofnunar að Norðurál fái enn á ný með hinu nýja starfsleyfi heimild til utanumhalds með umhverfisvöktun vegna eigin mengunar.

Vísað er í greinar 4.2 og 4.5 í nýja starfsleyfinu.

Utanumhald með umhverfisvöktun veitir mikið vald. Greiðslur koma frá Norðuráli til aðila sem annast umhverfismælingar. Greiðslur koma frá Norðuráli til Umhverfisstofnunar vegna eftirlits. Greiðslur koma frá Norðuráli (og öðrum iðjuverum á Grundartanga) til verkfræðistofu sem annast skýrslugerð. Hlutlæg umhverfisvöktun næst ekki þegar mengunarvaldurinn hefur alla þræði umhverfisvöktunar í hendi sér. Ekki þykir ástæða til að gefa íslenskum fyrirtækjum svo lausan taum við eftirlit með sjálfum sér. Slíkt þætti í raun óhæfa. Sama á að gilda um fyrirtæki í eigu erlendra aðila.

Fáránleiki þessa fyrirkomulags hefur blasað við á umliðnum árum. Dæmi: Undirrituð hefur lagt mikla áherslu á góða vöktun á heilsu hrossa sem ganga í högum nærri Grundartanga. Ekki hefur reynst unnt að koma á vöktun sem byggist á mælingum. Norðurál hefur komist upp með að hafna slíku – með samþykki Umhverfisstofnunar. Nú er þreifað og þuklað á völdum hrossum á örfáum bæjum í stað þess að mæla skipulega á rannsóknarstofum flúor í beinsýnum og líffærum hrossa sem verið hafa á beit í grennd við Grundartanga og bera saman við mælingar í hrossum frá svæðum sem ekki eru menguð af flúori.

Í greinargerð Umhverfisstofnunar með nýja starfsleyfinu er nefnt að stofnunin hafi farið fram á fjárveitingu frá Umhverfis- og auðlindaráðuneyti til umhverfismælinga á eigin vegum. Vitað er að ráðuneyti hafa ekki úr miklum fjármunum að spila. Þess vegna getur þessa góða fyrirætlan Umhverfisstofnunar auðveldlega runnið út í sandinn. Nauðsynlegt er að taka upp það fyrirkomulag að Norðurál og önnur iðjuver sem þarf að vakta vel og skipulega, greiði tilskilda upphæð í sjóð sem hlutlaus og þar til bær aðili sér um að greiða fé úr til umhverfisvöktunar. Við ákvörðun gjalds í slíkan sjóð þarf að gera ráð fyrir útgjöldum vegna sérstakra mælinga utan vöktunarskipulags.

Undirrituð krefst þess að fellt verði úr gildi starfsleyfi fyrir Norðurál frá 16. 12. 2015 og að utanumhaldi vegna vöktunar á áhrifum mengunar Norðuráls verði létt af mengunarvaldinum og það fært í hendur þar til bærra opinberra aðila áður en ákvörðun verður tekin varðandi nýtt starfsleyfi fyrir Norðurál á Grundartanga.

5.    Kærð er sú ráðstöfun Umhverfisstofnunar að undirrituð sem íbúi við Hvalfjörð með ábyrgð á húsdýrahaldi, skuli ekki tafarlaust fá vitneskju um það ef mengunarslys á sér stað í álveri Norðuráls á Grundartanga.

Undirrituð fær ekki skilið annað en að hlutverk Umhverfisstofnunar sé að standa með íbúum, náttúru og umhverfi, fremur en mengandi stóriðju. Hið nýja starfsleyfi tryggir ekki öryggi íbúa í Hvalfirði, komi til mengunarslyss hjá Norðuráli. Álverinu er leyft að vera með bilaðan hreinsibúnað í 3 klukkustundir án þess að íbúum sé gert viðvart. Undirrituð kærir þennan gjörning Umhverfisstofnunar og krefst þess að á meðan Norðurál starfar sé í gildi viðbragðsáætlun þar sem íbúar fái tafarlaust að vita ef hreinsibúnaður bilar.

Að öðru leiti vísar kærandi í röksemdir sínar í bréfi með athugasemdum vegna tillögu Umhverfisstofnunar að nýju starfsleyfi Norðuráls, dags 16. október 2015.

Virðingarfyllst,

Ragnheiður Þorgrímsdóttir
kt. 020750-7319
Kúludalsá, Hvalfirði


P.S.

Tilkynning um afgreiðslu nýs starfsleyfis fyrir Norðurál var birt undirritaðri bréflega þann 22. desember s.l. Var þá komið fast að jólum. Finnast eðlilegar skýringar á hinni sérstöku tímasetningu á afgreiðslu þessa stóra máls? Glöggir fréttamenn sáu við þessum gjörningi, en það varð m.a. til þess að undirrituð þurfti að verja Þorláksmessu til að svara spurningum fjölmiðla um starfsleyfisveitinguna og viðbrögð við henni. Engan þarf að undra þó ekki næðist í fleiri aðila þar sem stærsta hátíð landsmanna var rétt að ganga í garð.

Sérkennilegt var að heyra þann sama dag, í ríkisútvarpi allra landsmanna, hlýlegar jólakveðjur frá Umhverfisstofnun.

 
<< Start < Prev 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 Next > End >>

Page 3 of 33