Vöktun og vernd

Ragnheiður Þorgrímsdóttir:

Í síðustu pennagrein ræddi ég um flúortölur í sauðfé nærri Grundartanga og sýndi með tölum hvað Vestursvæðið hefur orðið illa úti, án þess að rönd væri við því reist. Að mestu leiti er þetta svæði utan við skilgreint þynningarsvæði fyrir flúor frá Norðuráli.

Við skoðun á vöktunarskýrslum sést að á þessu sama svæði, þar sem flúorálag er mest, er beitarlandið einstaklega illa vaktað. Í fjallshlíðunum þar sem kindurnar halda sig mest yfir sumartímann, hafa engin grassýni verið tekin til flúormælinga, ekki fyrr en af undirritaðri sumarið 2019, vegna þess að þar veiktist hryssa. Flúorgildin í grasinu reyndust mjög há. Umhverfisstofnun og Norðurál voru látin vita og haldnir voru fundir með forsvarsmönnum, en þeir fundir hafa engu skilað. Í rauninni hefði þetta svæði átt að vera í gjörgæslu með vöktun, en því fer fjarri að svo sé og einna líkast því að enginn hafi komið auga á þetta nema ég. Það getur varla verið, þar sem iðjuverin hafa á sínum snærum verkfræðistofu til að fara yfir gögnin frá umhverfisvöktuninni og gefa þau út. Umhverfisstofnun fer líka yfir allt og á auðvitað að hafa auga á hverjum fingri, ekki síst af því að stóriðjan er inni á landbúnaðarsvæði.

Ágiskanir í stað rannsókna

Umhverfisvöktun á að veita vernd. Hún þarf að standast skoðun og mikilvægur grundvöllur hennar eru rannsóknir svo sem á flúorþoli búfjár, kinda, hrossa og nautgripa. Þessum rannsóknum hefur ekki verið sinnt. Sú fullyrðing hefur aftur á móti farið eins og rauður þráður um vöktunarskýrslur liðinna ára að niðurstöður væru langt undir viðmiðunarmörkum.

En hvað eru þessi viðmiðunarmörk og hvernig eru þau fundin? Viðmiðunarmörk þýða að gildi eiturefna í umhverfinu séu ásættanleg upp að þeim. Vandinn er bara sá að sum þeirra viðmiðunarmarka sem notuð eru, byggja ekki á rannsóknum. Það á við um búféð. Þar eru viðmiðunarmörkin áætluð. Þetta er sérstaklega áberandi hvað varðar hross. Þar er algjör skortur á þekkingu og hross eru ekki nefnd í reglugerð 340/2001 um þol búfjár á aukaefnum í fóðri.

Án þess að gera nauðsynlegar rannsóknir verður ekki til haldbær þekking. Það verður áfram hægt að stunda áróður um flúorþol búfjár, þar sem einn étur upp eftir öðrum einhverjar tölur sem eru án þekkingargrunns, sem sagt ágiskanir. Lærðir menn og konur dunda sér við að yfirfæra þolmörk á milli búfjártegunda rétt eins og líffræðilegir eiginleikar tegundanna skipti engu máli. Búvísindamenn sjá örugglega fáránleikann en fæstir treysta sér í slaginn og sumir eru kannski helst að hugsa um að halda í vinnuna sína.

Búskapur með húsdýr var lifibrauð þjóðarinnar um aldir. Með því fúski sem hér er nefnt er honum og þeim sem hann stunda sýnd óvirðing og rétturinn til að stunda búskap í hreinu umhverfi á sínu eigin landi er tekinn af þeim. Sama er að segja um neytendur. Þeim er einnig sýnd óvirðing því hreinleiki matvæla er krafa nútímans.

Enginn vill axla ábyrgð, hvorki stóriðjan eða hagsmunahópar í kringum hana, eftirlitsstofnunanir, sveitarstjórnir, bændasamtök né stjórnmálaflokkar og allra síst þeir einstaklingar sem heimtuðu álver inn í Hvalfjörð og gáfu fyrir sitt leyti „veiðileyfi“ á búskap með hross, sauðfé og nautgripi.

Vald yfir vöktun

Þeir sem stjórna vöktuninni hafa ákveðið að leggja ekki áherslu á rannsóknir. Og hverjir hafa þetta vald? Iðjuverin á Grundartanga hafa fingurna í öllum þáttum umhverfisvöktunar, alveg frá því að ráða fólk til að taka sýni og í það að borga beint fyrir þessa vinnu, greiða Umhverfisstofnun fyrir eftirlit og greiða verkfræðistofu fyrir að túlka niðurstöðurnar og gefa þær út. Umhverfisvöktun er þannig undir áhrifum hagnaðardrifinna aðila sem geta haft mikið um vöktun og túlkun niðurstaðna að segja og eru þar að auki uppteknir af ímyndarsköpun.

Svo margir veikir hlekkir hafa komið í ljós í þeirri öryggiskeðju sem umhverfisvöktunin ætti að vera, að hugtakið „hálfur sannleikur“ er nær sanni. Hér eru nokkur dæmi.

Iðjuverunum var treyst til að gera loftdreifilíkan fyrir Hvalfjörð. Þetta líkan, ef það er til, virðist ekki hafa gefið hættumerki varðandi Vestursvæðið, nema að ákveðið hafi verið að taka ekki mark á því.

Loftgæðamælirinn í Stekkjarási var fjarlægður, en hann gaf raunsannasta mynd af flúor- og brennisteinsálagi á Akrafjallið og Vestursvæðið. Ástæðan sem gefin var upp var að þynningarsvæði fyrir flúor hefði verið fært yfir hann. Auðvitað hefði hann haldið áfram að gefa mikilvægar upplýsingar, en á þær ábendingar hefur ekki verið hlustað.

Hross nærri Grundartanga eru ekki vöktuð fyrir flúor. Ekki heldur nautgripir. Þó hefur ítrekað verið óskað eftir því.

Í túlkun niðurstaðna vöktunar er áhersla lögð á meðaltöl þó vitað sé að einstakir mengunartoppar gera mestan skaða. Þannig fletjast mikilvægar upplýsingar út. Þannig var mengunarslysið 2006 afgreitt í „Grænu bókhaldi“ Norðuráls. Þar var verkfræðingur að störfum.

Síaukin áhersla í umhverfisvöktun er lögð á að skoða í stað þess að mæla.

Verkfræðistofa á vegum iðjuveranna sér um að túlka niðurstöður vöktunarinnar. Lítum aftur á flúorgildi í sauðfé og samanburð á milli ára. Í nýjustu vöktunarskýrslunni má lesa að flúorgildin séu svipuð 2019 og 2007, hafi í sumum tilfellum jafnvel lækkað (sbr. bls. 40 „Allir bæir norðan Hvalfjarðar: Lækkun“)*

Árið 2007 er ekki marktækt sem viðmið. Það ár var miklu meiri flúor í umhverfinu vegna mengunarslyssins 2006 heldur en t.d. árin 2008, 2009 og 2010. En með því að miða við árið 2007 verður samanburðurinn hagstæður fyrir Norðurál. Blekkingaleikur og þarna eru verkfræðingar að störfum.

Niðurstöður vöktunar eru kynntar árlega. Eftir fyrsta fundinn sem ég sat var ég í hálfgerðu áfalli. Iðjuverin voru mærð úr hófi fram í nærri klukkutíma. Svo tók við einhliða miðlun allt að ársgamalla upplýsinga og erfitt var að fá svör við spurningum. Veisla í boði iðjuveranna. Þessi ímyndarsköpun vekur tortryggni. Það er engin þörf á glansmynd.

Vöktunarskýrslurnar eru opinberar upplýsingar og eiga að vera aðgengilegar fyrir almenning. Búið er að fjarlægja elstu vöktunarskýrslurnar af vef Umhverfisstofnunar og iðjuveranna. Þessar skýrslur eru mikilvægar þrátt fyrir ýmsa vankanta og eiga alltaf að vera aðgengilegar. Ekki má gleyma því að almenningur á rétt á aðgangi að þessum gögnum.

Ágeng ímyndarsköpun

Stjórnvöld leggja áherslu á rafvæddar samgöngur og endurheimt votlendis, sem viðbrögð við loftslagsvanda. Það er gott. En á meðan fær stóriðjan að vera eins og „fríríki“ og stunda ímyndarsköpun til að slá ryki í augu almennings. Við könnumst við slagorðið „Eitt mest rannsakaða svæði á Íslandi.“ Það þýðir ekki í reynd að vöktunin sé í lagi.

Og ímyndarsköpunin teygir sig út fyrir sjálf iðjuverin. Hér er dæmi um ímyndarsköpun á kostnað umhverfisins. Faxaflóahafnir eru hagnaðardrifið félag, að mestu í eigu Reykjavíkurborgar, en fjögur minni sveitarfélög eiga fjórðung. Faxaflóahafnir eiga landið á Grundartanga sem iðjuverin standa á og fóru fyrir nokkrum árum í vegferð til að endurheimta votlendi. Það leit kannski ágætlega út fyrir þá sem ekki eru kunnugir staðháttum.

Katanestjörn sem er í landi Faxaflóahafna hafði upp úr 1950 verið verið ræst út í sjó, en fyrir þá aðgerð náði tjörnin yfir um níu hektara lands. Eftir varð votlendi og á tjarnarbotninum sjálfum voru enn smátjarnir með hólmum þar sem álft, óðinshani, himbrimi og fleiri fuglategundir áttu sér búsvæði. Botn tjarnarinnar varð að kjörlendi fyrir slíka fugla. Endurheimt votlendis Faxaflóahafna fólst í því að dæla vatni í tjörnina fyrrverandi og sökkva þar með votlendinu sem fyrir var, - að endurheimta votlendi með því að sökkva votlendi og eyðileggja búsvæði fuglanna sem höfðu hreiðrað um sig á tjarnarbotninum.

Vinnum saman

Á þessu ári verður kosið til Alþingis. Helmingur núverandi þingmanna Norðvesturkjördæmis kemur frá Vestursvæðinu, svæði sem er útsettast fyrir flúor af öllum svæðum við Hvalfjörð. Góð umhverfisvöktun veitir vernd. Stöndum saman um slíka vöktun. Það er hægt að draga úr losun flúors og annars iðnaðarúrgangs. Gerum kröfur um það. Gerum meiri kröfur um að það fólk sem heldur um taumana í samfélaginu sé umhverfinu hliðhollt. Gerum í sameiningu kröfur um lífvænleg búsetuskilyrði. Saman því þá erum við sterkari.

fjallsegg.jpg - 55.24 Kb

Texti með mynd:

Séð yfir Akranes og nágrenni. Frá þessu svæði kemur helmingur þingmanna Norðvesturkjördæmis. Mynd: A. Devrient.

*nordural.is/wpcontent/uploads/2021/02/2019-Umhverfisvo%CC%88ktun.pdf

 
Grundartangi og Vestursvæðið

Ragnheiður Þorgrímsdóttir:


Í síðustu pennagrein fjallaði ég um frávik í starfsemi Norðuráls, sem hafði alvarlegar 

afleiðingar og sýnir hversu erfið eftirfylgni er, ef mengun sést ekki með berum augum og mælingar eru ekki nægjanlegar. Í landbúnaðarhéraði þar sem sífellt er til staðar loftborinn iðnaðarúrgangur er algjört skilyrði:

Að vöktun umhverfisins sé rétt gerð og upplýsingagjöf snurðulaus.

virkt eftirlit sé með viðkomandi fyrirtækjum.

aðili á vegum hins opinbera sjái um alla þætti vöktunar, en ekki sá sem veldur mengun.

Vegna lofsverðrar staðfestu sauðfjárbænda í Hvalfirði hefur sauðfé verið vaktað fyrir flúor nánast frá því starfsemi Norðuráls hófst. Þannig hafa safnast mikilvægar upplýsingar sem varða þennan þátt. Bændum á vöktunarbæjum hefur verið gert að skila hvert haust fjórum hausum af sláturlömbum og fjórum hausum af fullorðnu fé til flúorgreiningar. Skil á þessum sýnum hafa yfirleitt gengið vel og til eru samfelldar greiningar síðan 2001 sem gefa talsverðar upplýsingar um dreifingu flúors við Hvalfjörð.

Mismunandi flúorálag eftir svæðum

Lítum aðeins á niðurstöður flúormælinga í lömbum eftir mengunarslysið 2006. Línuritin eru úr vöktunarskýrslu ársins 2009. Berum saman myndir 6.3. og 6.4

 

Mynd 6.3. sýnir áhrif mengunarslyss í Norðuráli 2006 á flúor í lömbum vestan við Grundartanga.


Mynd 6.4. sýnir áhrif mengunarslyss í Norðuráli 2006 á flúor í lömbum norður og austur af Grundartanga.

Svæðið vestan við iðjuverin, sem kallað er hér Vestursvæðið, varð lang verst úti í mengunarslysinu 2006 eins og sést á línuritunum. Meðaltal flúors í lömbum mældist allt að 1600 ppm (milljónustu hlutar) sunnan við Akrafjall. Við eðlilegt ástand ætti þessi tala að vera talsvert innan við 100 ppm í lömbum sem ekki hafa aðgang að fjörubeit.

Flúorálagið var ekki aðeins lang mest á Vestursvæðið árið 2006, heldur er það viðvarandi ástand. Á töflunni sést að munurinn hefur orðið allt að sexfaldur. Álagið er mest á þurrkatímum en þá eru austanáttir ríkjandi.

Taflan er unnin upp úr vöktunarskýrslum áranna 2010 - 2019. Norðanverðum Hvalfirði er skipt upp í þrjú svæði: Vestur-, Norður- og Austursvæðið. Tekin eru meðaltöl af hverju svæði. Í skýrslunum má sjá hvaða bæir eru í vöktun á hverju svæði. Tölurnar eru ppm (milljónasti hluti).

 

Auðvitað hljóta viðvörunarbjöllur að hafa hringt hjá Umhverfisstofnun, Faxaflóahöfnum, sveitarstjórnum, Þróunarfélagi Grundartanga og þingmönnum Norðvesturkjördæmis, því þessar upplýsingar eru aðgengilegar öllum. Fróðlegt væri að heyra skoðanir þessa fólks á framtíð Vestursvæðisins. Vonandi ríkir ekki það viðhorf að því megi fórna fyrir Grundartanga.
 
<< Start < Prev 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 Next > End >>

Page 1 of 33